Lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta mun fara fram fjórum dögum fyrr en áætlað var.
Mótanefnd Handknattleikssambands Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem var sagt frá niðurstöðu fundar hennar.
Mótanefnd HSÍ hefur ákveðið að lokaumferðin skuli fara fram miðvikudaginn 21. mars kl.19:30 en hún átti að fara fram sunnudaginn 25. mars.
„Vegna þátttöku ÍBV í Evrópukeppni, getur lokaumferðin ekki farið fram á tilsettum tíma, en skv. reglugerð HSÍ um handknattleiksmót skal umferðin öll leikin á sama tíma,“ segir í fréttatilkynningunni.
ÍBV-liðið er komið alla leið í átta liða úrslit Áskorendakeppni Evrópu þar sem liðið mætir rússneska liðinu SKIF Krasnodar. Leikirnir fara fram 25. mars í Rússlandi og svo 31. mars eða 1. apríl í Vestmanneyjum.
Eyjamenn eru eina liðið sem er ennþá inn í Evrópukeppninni en liðið hefur þegar slegið út
HC Gomel frá Hvíta-Rússlandi og Ramhat Hashron frá Ísrael.
„Mótanefnd skal að öllu jöfnu raða leikjum í síðustu tveimur umferðum í efstu deildum karla og kvenna á sama tíma. Leikir í þessum umferðum, sem geta haft úrslitaáhrif á stöðu liða í efstu sætum (rétt til þátttöku í úrslitakeppni/umspili), skulu ávallt fara fram á sama tíma. -18- Sama á við um leiki, sem geta haft úrslitaáhrif á fall úr deild. Liði, sem ferðast til leiks í þessum umferðum, er óheimilt að treysta á flug á leikdegi og skal nota annan ferðamáta til að komast á leikstað á réttum tíma,“ segir ennfremur í fréttatilkynningunni.
Næstsíðasta umferðin fer fram sunnudaginn 18. mars þannig að í stað þess að það séu sjö dagar á milli leikjanna þá spila öll liðin tvo leiki á fjórum dögum.
Leikirnir í lokaumferðinni:
Selfoss - Víkingur
Haukar - Valur
Fram - ÍBV
Stjarnan - FH
Grótta - Fjölnir
Afturelding - ÍR
