Logi Gunnarsson lagði landsliðsskóna á hilluna á sunnudaginn og nú ætlar Jón Arnór Stefánsson að kveðja íslenska körfuboltalandsliðið í sumar.
Jón Arnór Stefánsson gaf það út í viðtali við Körfuna, karfan.is, að hann ætli að hætta í íslenska landsliðinu eftir síðustu tvo leikina í undankeppni HM sem fara fram í júní.
„Ég tek þessa leiki í sumar, svo er ég hættur. Það er bara svoleiðis,“ sagði Jón Arnór í netþætti Karfan.is sem má finna hér.
Íslenska landsliðið spilar báða þessa leiki í undankeppni HM í sumar á útivelli, fyrst í Búlgaríu og svo í Finnlandi. Þar með lítur út fyrir að Jón Arnór hafi þegar spilað sinn síðasta landsleik í Laugardalshöllinni.
Hver veit þó nema að KKÍ skipuleggi kveðjuleik fyrir kappann áður en kemur að leikjunum við Búlgaríu og Finnland. Leikirnir í undankeppninni fara fram 29. júní og 2. júlí.
Það þýðir að deildarkeppnin hér heima er löngu búinn þegar kemur að þessum leikjum sem kallar á að íslenska landsliðið spili vináttuleiki í aðgranda leikjanna tveggja við Búlgari og Finna.
Jón Arnór Stefánsson hefur spilað 98 landsleiki á ferlinum og gæti því endaði landsleikjaferil sinn eftir landsleik númer 100. Spili íslenska liðið undirbúningsleiki í sumar þá mun Jón þó væntanlega spila fleiri en 100 landsleiki.
Síðasti landsleikur Jóns Arnórs verður hinsvegar 2. júlí 2018 og fer hann fram í Finnlandi. Það var einmitt í Helsinki þar sem hann spilaði síðasta leikinn sinn á ferlinum í úrslitakeppni EM.

