Skoðun

Trúarjátningin

Óttar Guðmundsson skrifar
Öldum saman voru styrjaldir, hungur, farsóttir og óblíð náttúra helstu óvinir mannkyns. Erfiðleikar daglegs lífs voru miklir. Ungbarnadauðinn hár, slysatíðni á sjó og landi mikil, matarskortur þegar leið á veturinn. Á þessum óvissutímum setti fólk traust sitt á Guð. Sjómenn báðu sjóferðabæn í fjörunni, húslestrar voru lesnir á síðkvöldum, menn signdu sig áður en þeir héldu út í daginn. Nú er öldin önnur. Menn hafa klætt af sér veðráttuna. Farsóttir láta ekki á sér kræla og fleiri Íslendingar deyja úr offitu en hungri. Í fyrirsjáanlegum heimi er lítil þörf fyrir Guð.

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, sagði í sjónvarpsviðtali að hann væri trúaður og leitaði stundum svara og styrks í bæninni. Drottinn hefði hjálpað honum að taka ákvörðun um pólitíska framtíð sína. Hann áttaði sig þó fljótlega á því að yfirlýsingar sem þessar voru ekki líklegar til vinsælda. Netheimar gengu af göflunum af hneykslan og bræði.

Hugurinn leitaði til píslarvotta trúarinnar eins Guðmundar Arasonar biskups góða sem ofsóttur var fyrir trú sína en hvikaði aldrei.

Slík þvermóðska og trúfesta samrýmist engan veginn pólitískri rétthugsun samtímans. Eyþór kom strax fram í öðru viðtali, dró fyrri trúarjátningu til baka en játaði á sig barnatrú (sem er viðurkennd). Hann sagðist aldrei hafa leitað svara hjá æðri máttarvöldum.

Hver vill láta rífa sig á hol fyrir jafn gamaldags og hallærislegt fyrirbæri og trú sína?

Nú getur Eyþór raulað með gömlu konunni í Brekkukotsannál:

Bibblían er sem bögglað roð

fyrir brjósti mínu,

gleypti ég hana alla í einu,

ekki kom að gagni neinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×