Bæði lið byrjuðu leikinn rólega og var lítið skorað í leiknum framan af. Grótta fór þó að finna taktinn og á 16. mínútu voru þeir komnir með fjögurra marka forystu, 2-6. Þá tók Gunnar Gunnarsson leikhlé fyrir Víkinga og batnaði varnarleikur liðsins til muna í kjölfarið.
Sóknarleikur Víkinga náði hinsvegar aldrei að flugi og var of hægur og hugmyndasnauður til að saxa á forskot Gróttu. Hálfleikstölur 9-14 og Grótta sanngjarnt fimm mörkum yfir í hálfleik.
Víkingar komu sterkari inn í síðari hálfleikinn og náðu fljótt að minnka muninn í þrjú mörk, 12-15, með þremur mörkum frá Birgi Má Birgissyni. Nær komst Víkingur ekki því leikmenn Gróttu voru þá fljótir að svara fyrir sig og skoruðu næstu þrjú mörk leiksins. Staðan þar með orðin 12-18 og útlitið ekki bjart fyrir Víkinga.
Grótta gerði það sem þurfti til að halda forystu sinni og ljóst að Víkingar höfðu ekki mikla trú á verkefninu. Lokatölur urðu því 25-31 og Seltirningar gátu fagnað sæti sínu í deildinni.
Af hverju vann Grótta leikinn?
Það sást greinilega að annað liðið hafði eitthvað til að spila fyrir en hitt ekkert meira en heiðurinn. Grótta var miklu betra liðið á öllum sviðum í kvöld og sýndu að þeir eiga sæti sitt í Olís-deildinni fyllilega skilið, þeir eru stiginu betri en nýfallnir Víkingar.
Grótta spilaði öflugan varnarleik sem Víkingar áttu í miklum vandræðum með að finna leiðir í gegnum. Grótta gerði einfaldlega það sem þurfti til að klára leikinn í kvöld en það var í raun ekki svo mikið sem þurfti til.
Hverjir stóðu upp úr?
Gunnar Valdimar Johnsen var markahæsti maður vallarins með 9 mörk. Næstur á eftir honum kom Júlíus Þórir Stefánsson með 8 mörk.
Í liði Víkings var Birgir Már Birgisson atkvæðamestur en hann skoraði 7 mörk.
Hvað gekk illa?
Sóknarleikur Víkinga var afleitur. Hann var hægur og með of litla skotógn fyrir utan teiginn svo Grótta átti ekki í miklum erfiðleikum með að verjast. Auk þess voru Víkingar með allt of marga tapaða bolta og nýttu sjaldan þau tækifæri sem þeir fengu til að ná hraðaupphlaupsmörkum.
Hvað gerist næst?
Allir leikirnir í síðustu umferð Olís-deildar karla fara fram næsta miðvikudag klukkan 20:30. Víkingar mæta þá toppbaráttuliði Selfyssinga á meðan Grótta tekur á móti nýföllnu liði Fjölni.
Kári: Okkur var spáð falli

Til þess að gulltryggja sæti sitt í deildinni þurfti Grótta á stigi að halda í dag. Kári var því að vonum glaður með sigurinn og áframhaldandi veru í Olís-deildinni.
„Þetta er frábært. Það má ekki gleyma því að okkur var spáð falli fyrir veturinn. Okkur var spáð 11. sæti og við erum núna í 9. sæti. Ef við vinnum Fjölni á miðvikudaginn þá endum við í 9. sæti sem er fyrir ofan það sem menn bjuggust við.“
„Við vorum lengi í gang, ég held við höfum ekki fengið stig í fyrstu 8 umferðunum en það duttu inn góðir sigrar og það tryggir okkur sæti í deildinni.“
Grótta mætir nýföllnum Fjölnismönnum í síðustu umferð deildarinnar á miðvikudaginn. Kári telur að það sé mikilvægt að enda tímabilið á sigri.
„Við fögnum þessu núna á eftir og förum svo bara að einbeita okkur að næsta leik. Við töpuð nokkuð sannfærandi fyrir þeim í fyrstu umferðinni með fjórum mörkum. Það ætti bara að hvetja okkur fyrir þetta. Og svo ekki síst þetta 9. sæti, það væri glæsilegt að klára veturinn þannig og drengirnir eiga mikið hrós skilið fyrir þessa frammistöðu í dag,“ sagði Kári að lokum.
Gunnar: Menn gátu ekki kastað á milli

„Það sást greinilega að það var meira í húfi hjá Gróttu en mér fannst við geta lagt okkur aðeins meira fram. Tæknifeilar í fyrri hálfleik voru 11 til 12, menn gátu ekki kastað á milli. Þannig að þetta var dapur.“
Gunnar segir að þrátt fyrir að Víkingar hafi ekki haft að neinu að keppa í kvöld hafi hann viljað sjá betri frammistöðu hjá sínum mönnum.
„Þetta snýst líka um að hafa stolt fyrir sjálfum sér, hvernig maður er að spila. Mér fannst menn ekki alveg ná því fram.“
Þetta var níundi tapleikur Víkinga í röð og var Gunnar alveg hreinskilinn með það að hann býst ekki við miklu af sínum mönnum í lokaleik deildarinnar á móti Selfossi.
„Það verður gríðarlega erfiður leikur. Við erum að fara að keppa fyrir troðfullu húsi geri ég ráð fyrir þar og ef að menn höndla ekki pressuna hérna fyrir hálftómri Víkinni þá veit ég ekki hvernig það verður,“ sagði Gunnar að lokum.