Umfjöllun og viðtöl: FH - Selfoss 29-34 | Öll lið jöfn fyrir lokaumferðina

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Teitur var magnaður í kvöld.
Teitur var magnaður í kvöld. vísir/eyþór
Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og unnu topplið FH í Kaplakrika í kvöld með fimm mörkum, 29-34. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, staðan í hálfleik var 15-16.

Áhorfendur í Kaplakrika fengu mikið fyrir peninginn í kvöld. Leikurinn einkenndist af hröðum sóknum fyrstu 10 mínúturnar, liðin voru lengi að stilla upp í vörn og markvarslan var lítil sem engin. Á 10. mínútu fékk Eyvindur Hrannar Gunnarsson, leikmaður Selfoss, beint rautt spjald fyrir að slá harkalega í andlitið á Ísaki Rafnssyni. Eftir það breyttist leikur beggja liða, vörnin fór að þéttast og markvarsla datt inn en bæði lið höfðu þá skipt um markmenn og þeir Birkir Fannar Bragason og Helgi Hlynsson áttu góða innkomu hjá sínum liðum. Leikurinn var áfram jafn og staðan í hálfleik 15-16, Selfyssingum í vil.

Síðari hálfleikurinn hófst á svipuðum nótum og jafnræði var á vellinum fyrstu 10 mínúturnar. Selfoss fór þá að ná tökum á leiknum og var komið með þriggja marka forskot, 19-22. Eftir það náðu heimamenn ekki að halda í við gestina sem unnu að lokum fimm marka sigur. Sigur Selfoss gerði þar með svo gott sem út um vonir FH um deildarmeistaratitilinn.

 

FH hefur verið á toppi Olísdeildarinnar frá fyrsta degi en eftir leikinn í kvöld hafa Hafnfirðingar að öllum líkindum kastað deildarmeistaratitlinum frá sér. FH þarf að vinna sinn síðasta leik gegn Stjörnunni í lokaumferðinni á miðvikudag og treysta svo á það að bæði lið Selfoss og ÍBV tapi á sama tíma.

Af hverju vann Selfoss?

Liðsheildin skilaði Selfossi sigrinum í dag. Gestirnir frá Selfossi voru agaðir og þessi fjölbreytti varnarleikur gerði FH erfitt fyrir. Eyvindur Hrannar fékk að líta rauða spjaldið snemma leiks og við það þéttist leikur Selfyssinga, vörnin var frábær, innkoma Helga Hlynssonar í markið var góð og sóknarleikurinn var góður.

Hverjir stóðu uppúr?

Selfossliðið var frábært í dag en þeir Haukar Þrastarson og Teitur Örn Einarsson voru að vanda mjög mikilvægir í þeirra leik. Teitur var með 10 mörk og Haukur 5. Helgi Hlynsson átti góða innkomu í markinu og var með tæplega 50% markvörslu.

Hjá FH var það Birkir Fannar Bragason sem varði vel og átti mjög mikilvægar vörslur en það skilaði þeim ekki sigri í dag. Einar Rafn Eiðsson átti fínan leik, hann var markahæstur í liði FH með 9 mörk en þurfti þó 17 skot til.

Hvað gekk illa?

FH átti í vandræðum með varnarleik Selfyssinga, sérstaklega þegar Patrekur tefldi fram 3+3 vörn í fyrri hálfleik. Það vantaði liðsheildina hjá FH og aga í sókninni. Ágúst Elí Björgvinsson átti ekki góðan dag í markinu, hann klukkaði aðeins einn bolta í upphafi leiks og var síðan skipt af velli.

Hvað er framundan?

Lokaumferð Olís deildarinnar er næst á dagskrá. Á miðvikudaginn kemur í ljós hverjir verða deildarmeistarar en FH mætir þá Stjörnunni í Garðabænum og Selfoss tekur á móti Víkingum. ÍBV er einnig að berjast um efsta sætið og mæta þeir Fram í Safamýrinni.

Halldór Jóhann: Þarf að taka þessa stöðu alvarlega

„Ég er mjög svekktur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, að leik loknum. „Við lögðum gríðarlega vinnu í þennan leik og mér fannst við stóran part af leiknum ekki góðir. Við vorum rosalega óklókir, köstum ótrúlega mikið af boltum frá okkur sem við þurftum ekki að kasta frá okkur.”

„Ég á eftir að kíkja betur á þetta en það voru margir hlutir sem féllu ekki með okkur í dag og duttu upp í hendurnar á þeim, stundum er þetta bara þannig. Þeir voru að fá öll fráköst og við ekki að nýta dauðafæri okkar. Selfossliðið er á góðu skriði í og vel mannað,“ sagði Halldór Jóhann, ósáttur með leik sinna manna í dag.

„Við vorum bara ekki nógu góðir satt best að segja. Leikurinn fjaraði frá okkur, á öllum þeim tímapunktum þar sem við gátum jafnað í seinni hálfleik þá erum við að taka einhverjar glórulausar ákvarðanir, ég er hvað svekktastur með það.”

„Ég átta mig ekki alveg á þessu, við duttum úr karakter og við þurfum að vinna í okkar málum fyrir úrslitakeppnina, þessi deildarmeistaratitill er farinn frá okkur. Það er alveg ljóst.“

FH hefur verið á toppi Olís deildarinnar frá fyrsta degi og hafa haft tækifæri til að klára deildina í síðustu umferðum en ekki verið sannfærandi. Þessi frammistaða veldur Halldóri áhyggjum fyrir komandi úrslitakeppni.

„Þetta var í okkar höndum og hefur verið það lengi. Við höfum spilað marga úrslitaleiki núna upp á síðkastið og ekki staðið okkur á stóra sviðinu, það veldur mér gríðarlegum áhyggjum. Við þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum.”

„Ég þarf að finna einhverjar lausnir á því hvað er í gangi. Við getum ekki verið að taka glórulausar ákvarðanir trekk í trekk undir pressu. Á tímabili í leiknum í dag vorum við ekki að spila sem lið heldur sem einstaklingar.“

„Ég lít alltaf björtum augum á framhaldið og ég veit alveg hvað liðið mitt getur. En það er alveg ljóst að ég þarf að taka þessa stöðu alvarlega, þetta gerist ekkert að sjálfum sér. Ég veit ekki hverjum er að kenna, af hverju við erum að gefa svona mikið eftir.”

„Við misstum auðvitað leikmenn í meiðsli en það er ekki hægt að kenna því um. Á sama tíma eru lykilleikmenn sem eru ekki að spila á sama krafti og þeir gerðu fyrr í vetur. Við þurfum við að fá þá aftur inn og ég þarf að fá þessi gæði aftur í liðið ef við ætlum að gera eitthvað í úrslitakeppninni,” sagði Halldór að lokum í kvöld.

Patrekur: Stoltur af ungu strákunum

„Ég er rosalega ánægður með strákana, þetta er eins og maður segr - karakter,“ sagði Patrekur Jóhannesson, himinlifandi með leik sinna manna í kvöld.

„Ég notaði alla leikmenn liðsins og það voru allir voru að leggja sig í þetta. Það hefur svolítið verið okkar merki í vetur, við erum að spila sem ein liðsheild og þannig var það í dag. Við vorum hættulegir í öllum stöðum og þessi framliggjandi vörn hjá okkur þvingaði FH-inga í 7 leikmenn á 6 og ég er mjög ánægður með það. Svo auðvitað að vinna hérna er mjög sterkt gegn svona góðu liði.“

„Við héldum okkar plani, svo komu mikilvægir boltar sem Sölvi varði í lokinn. Þetta eru tvö mjög góð lið sem eru búinn að spila vel í deildinni og það var bara kafli sem við vorum sterkari en annars heilt yfir var þetta mjög jafnt. FH er náttúrlega massalið með mikla reynslu og þess vegna er ég ánægður að ungu mennirnir mínir sýndu að það er alveg hægt að vinna á útivell og það með fimm mörkum,“ sagði Patrekur en með sigrinum í kvöld á Selfoss enn möguleika á því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Til þess að það gangi upp þarf ÍBV að tapa í sínum leik í loka umferðinni.

„ÍBV klárar þetta, held að það sé nokkuð öruggt,“ sagði Patrekur

Stuðningurinn sem Selfoss fékk var frábær í kvöld, margir lögðu leið sína yfir heiðina og í Hafnarfjörðinn til að styðja við sitt lið og Patrekur segir það forréttindi að fá að spila fyrir framan þetta fólk.

„Þetta er alveg ótrúlegt og það eru forréttindi að spila fyrir framan svona fólk. Þetta hefur verið svona í allan vetur og þetta gefur okkur aukin kraft, það eru tengsl milli strákana og fólksins. Við erum lið með 14 menn á skýrslu og aðeins einn af þeim er aðkomumaður, það eru ekki mörg lið sem geta státað sig af því.“

„Ég er bara spenntur fyrir leiknum gegn Víkingum núna. Það er verkefni sem við þurfum að mæta í af virðingu. Víkingar hafa sýnt það að þeir geta verið sterkir, gerðu jafntefli við Hauka og ef þú heldur að þetta sé leikur þar sem það er nóg að mæta bara þá verður þetta leiðindaleikur. Ég ætla að setjast yfir þennan leik í kvöld og síðan undirbý ég leikinn gegn Víkingum eins og hvern annan leik.“ sagði Patrekur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira