„Ég tók íbúðina alveg í gegn og er ótrúlega stoltur af þessu,“ segir Aron Már í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.
„Ég byrjaði þrettán ára að spara með pabba sem er rosalega mikil fyrirmynd mín í þessu og hefur sjálfur verið mikið í fasteignabraski. Ég ákvað að safna mér og ætlaði mér að kaupa íbúð þegar ég væri orðinn átján ára. Ég vann bara með grunnskóla og framhaldsskóla og lagði bara allt til hliðar.“
Aron segir að hann hafi í raun ekki eytt krónu í neitt sem ungur maður.
„Þetta er auðvitað svolítið ýkt og kannski ekki fyrir hvern sem er að gera en ég lét bara verða að þessu. Þetta var bara draumurinn minn og ég get staðið í honum í dag. Fyrsta vinnan mín var í bakaríi í Grafarholtinu og síðan fór ég að vinna í túristabúð við Seljalandsfoss. Þegar ég hafði tíma til að vinna, þá bara vann ég.“

„Þetta er einn af þeim markaði sem á mjög erfitt með að hrynja, allavega af minni vitund. Líka þegar þú ert kominn svona nálægt miðbænum, þá ertu að setja pening þinn í öryggi. Ég byrjaði bara fyrst að rífa niður einn lista og áður en ég vissi af var bara allt orðið fokhelt, og ég kominn töluvert fram úr sjálfum mér.“
Aron segist hafa fengið gríðarlega mikla aðstoð frá fjölskyldu sinni og margir iðnaðarmenn eru í kringum hann.
„Það halda eflaust margir að ég hafi fengið þetta allt frá foreldrum mínum og eigi í raun ekkert í þessu, en ég sjálfur veit hvað ég setti mikið í þetta og er gríðarlega stoltur af þessu.“
Íbúðin er einstaklega falleg og á besta stað í bænum. Hér að neðan má sjá eign Arons frá því í þætti gærkvöldsins.