Hin tvítuga Monalisa Perez, sem skaut kærasta sinn til bana í myndbandi sem birt var á YouTube, hefur verið dæmd í sex mánaða fangelsi.
Atvikið átti sér stað þann 26. júní síðastliðinn og játaði Perez við yfirheyrslur að hafa skotið úr skammbyssu í bók sem kærasti hennar, hinn 22 ára gamli Pedro Ruiz III, hélt á í um þrjátíu sentímetra fjarlægð frá byssunni. Hún játaði einnig á sig manndráp.
Þá sagðist Perez á sínum tíma ekki hafa átt von á því að kúlan færi í gegnum bókina. Sú varð á endanum raunin og hafnaði kúlan í bringu Ruiz sem var úrskurðaður látinn á vettvangi.
Í frétt Yahoo segir að Perez, sem var barnshafandi þegar hún varð Ruiz að bana, hafi verið dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir verknaðinn. Dómarinn í málinu féllst enn fremur á að fangelsisvistinni verði skipt niður þannig að Perez sitji aðeins inni tíu daga í senn yfir þriggja ára tímabil. Þá verður henni gert kleift að afplána seinni helming dómsins á heimili sínu.
Perez og Ruiz héldu úti YouTube-rás og hlóðu reglulega inn á hana myndböndum af „hrekkjum“ á borð við þann sem varð Ruiz að bana. Þriggja ára gamalt barn parsins auk þrjátíu áhorfenda fylgdust með atvikinu.
Dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir mannskæðan YouTube-hrekk

Tengdar fréttir

Játar manndráp vegna YouTube-hrekks sem fór úr böndunum
Skaut kærasta sinn til bana en parið taldi að alfræðiorðabók myndi stöðva byssukúluna.