Ein kvennanna, hin 28 ára gamla Mina Basaran var dóttir tyrknesks milljarðamærings en þotan var í eigu föður hennar. Faðir Minu heitir Huseyin Basaran og er umsvifamikill viðskiptajöfur í Tyrklandi. Mina starfaði í fyrirtæki föður síns og sat í stjórn þess.
Mina átti tugþúsund fylgjenda á Instagram en margir þeirra hafa vottað samúð sína á þeim vettvangi.
Tilefni ferðalagsins var fyrirhugað brúðkaup einnar úr vinkvennahópnum, en stöllurnar héldu gæsaveislu fyrir hana í Dubai. Skömmu fyrir slysið birti Mina mynd af sér ásamt vinkonum sínum að njóta lífsins á lúxushóteli í Dubai.
Ekki er vitað um tildrög slyssins en þotan brotlenti í fjallshlíð í héraðinu Chahar Mahal-Bakhtiari í Íran, í um 400 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Tehran.