Sextán manns létust er eldingu laust niður í kirkju Sjöunda dags aðventista í Rúanda í gær.
Kirkjan er í bænum Nyaruguru, skammt frá landamærum Búrúndí. Samkvæmt heimildum BBC létust flestir hinna sextán samstundis.
140 voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar í kjölfar atburðarins. Þrír hinna slösuðu liggja þungt haldnir en eru þó á batavegi, að sögn Habitegeko Francois borgarstjóra Nyaruguru.
Mikil þrumuveður hafa geisað á svæðinu undanfarna daga en á föstudaginn lést einn er eldingu laust niður í hóp nemenda.
Samkvæmt innlenda fjölmiðlinum Panor Actu lokuðu stjórnvöld í Rúanda um 700 kirkjum í landinu fyrir tveimur vikum vegna brota á byggingarreglugerðum, til að mynda vegna þess að eldingarvara vantaði í mannvirkin.
Elding varð sextán kirkjugestum að bana
Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
