EM kvenna fór fram í Hollandi síðasta sumar og næsta keppni fer fram sumarið 2021. Enska landsliðið komst í undanúrslitin 2017 og varð í þriðja sæti á HM 2015. Það er mikill uppgangur í kvennafótboltanum í Englandi.
Enska knattspyrnusambandið mun keppa um hnossið við Austurríki og Ungverjaland sem hafa bæði sótt um að fá að halda EM 2021. Þetta verður þrettánda Evrópukeppnin og sextán þjóðir munu komast á mótið eins og síðast.
Íslenska kvennalandsliðið hefur komist á síðustu þrjú Evrópumót sem hafa farið fram í Finnlandi (2009), Svíþjóð (2013) og Hollandi (2017). Stelpurnar okkar eru líklegar til að ná fjórða Evrópumótinu í röð haldi þær áfram á sömu braut.
UEFA mun taka ákvörðun um það í desember hvar Evrópumótið mun fara fram sumarið 2021.
England hélt EM kvenna sumarið 2005 en þá komust aðeins átta þjóðir á mótið. Það mót er líka síðasta Evrópumótið sem íslenska kvennalandsliðið missti af.
England hefur líka haldið eitt Evrópumót hjá körlunum en EM karla fór fram í Englandi sumarið 1996.
Enska knattspyrnusambandið hefur reynt að fá að halda HM karla á síðustu árum en FIFA hefur ekki orðið við því.
![](https://www.visir.is/i/2BBF03F8FFC257914D4BA4DC8B1E2201BEADABF2398FDCF39817B3B76A399ED1_713x0.jpg)