Stjórnvöld í Bretlandi hafa ákveðið að fara fram á leitarheimild til þess að rannsaka gagnagrunna og gagnaver fyrirtækisins Cambridge Analytica. Fyrirtækið er sakað um að hafa notfært sér upplýsingar um fimmtíu milljón notendur Facebook til þess að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar 2016.
Fyrirtækið neitar sök en í fréttaskýringaþætti Channel 4 á Bretlandi í gærkvöldi var notast við falda myndavél og þar virðist forstjóri fyrirtækisins stæra sig af aðferðum til að koma illu orði á stjórnmálamenn á netinu. Að hans sögn vílaði fyrirtækið ekki fyrir sér að leiða fólk í gildrur með aðstoð úkraínskra vændiskvenna og múta.
Vísir fjallaði ítarlega um afhjúpunina í gærkvöldi: Ráðgjafar Trump-framboðsins beita mútum og vændiskonum gegn stjórnmálamönnum
Í þættinum þóttist fréttamaður vera að vinna fyrir frambjóðanda á Sri Lanka og falaðist eftir aðstoð Cambridge Analytica við að koma óorði á aðra frambjóðendur.
Cambridge Analytica vakti heimsathygli fyrr þátt sinn í framboði Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Fyrirtækið var þá talið frumkvöðull í gagnagreiningu sem miðaði að því að sérsníða auglýsingar og kosningaáróður að notendum samfélagsmiðla til að hafa áhrif á hegðun þeirra.
