Bill Cosby snýr aftur í réttarsal í dag, um það bil 10 mánuðum eftir að upphafleg réttarhöld yfir honum voru ómerkt, í júní á síðasta ári. Hann er ákærður fyrir að hafa byrlað og nauðgað Andreu Constand, kanadískum nuddara, árið 2004. Á hann yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur að því er fram kemur í frétt The Guardian.
Þetta er fyrsta stóra málið sem fer fyrir rétt í Bandaríkjunum þar sem þekktur einstaklingur er sóttur til saka síðan metoo-byltingin átti sér stað síðasta haust.
Þjarmað var að Constand þegar málið var síðast fyrir rétti. Reyndu lögmenn Cosbys að draga í efa trúverðugleika hennar. Ýjað hefur verið að því í fjölmiðlunum erlendis að andrúmsloftið sem skapast hefur síðustu mánuði kunni að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins.
Málið gegn Cosby var látið niður falla síðasta sumar vegna þess að kviðdómur komst ekki að niðurstöðu í málinu. Kviðdómurinn var skipaður sjö körlum og fimm konum en nýr kviðdómur hefur jafnt kynjahlutfall.