Fráveitumál við Mývatn hafa verið í deiglunni um nokkra hríð en á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að í ljósi óvenjulegra aðstæðna við Mývatn hafi ríkisstjórnin samþykkt, skömmu fyrir jól, aðkomu að málinu, þrátt fyrir þá almennu lagareglu að sveitarfélög beri straum af rekstri veitna innan sinna vébanda.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra segir að verkefnið feli í sér miklar úrbætur;
„um það að taka seyru hérna frá atvinnustarfsemi og sveitarfélaginu sem keyrð verður og notuð í landgræðslu upp á Hólasandi, það er verið að leysa, vonandi, þessi frárennslismál sem hér hafa verið í nokkru ólagi í Mývatnssveitinni. Þarna vinnst kannski þrennt; það er verið að stuðla að frekari vernd lífríkisins Mývatns og Laxár, þetta nýtist í landgræðslu og sparar þá áburð á meðan og síðan er þetta mun ódýrari lausn heldur en aðrar lausnir sem skoðaðar voru.“
Aðspurður um hversu miklum fjármunum verði varið í verkefnið svarar Guðmundur: „Af hálfu stjórnvalda verða þetta um 180 milljónir sem fara þá í að byggja aðstöðu upp á Hólasandi til þess að geyma seyruna og síðan er það rekstrarkostnaður fyrir landgræðsluna til þess að bera þetta á, á næstu árum.“
Í tilkynningu frá Umhverfis-og auðlindaráðuneytinu segir að samhliða umbótum í fráveitu verði vöktun á Mývatni efld, einkum á innstreymi næringarefna í vatnið.
Um viljayfirlýsinguna hefur Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, þetta að segja:
„Með þessari viljayfirlýsingu er staðfestur ríkur vilji ríkisstjórnarinnar til að koma að þessu mikilvæga verkefni með heimamönnum.“
Undirrituðu viljayfirlýsingu um nýja lausn í fráveitumálum við Mývatn
