Steinullarverksmiðjan var stofnsett fyrir 33 árum og lifir enn góðu lífi á Sauðárkróki. Aðalhráefnið er sandurinn sem Héraðsvötn í Skagafirði bera með sér til sjávar. Hann er síðan blandaður fleiri sandtegundum, bræddur í ofni með rafmagni og spunninn úr honum ullarþráður, sem þó á ekkert skylt við ull sauðkindarinnar. Að lokum verða til steinullarmottur.

Steinullarmenn telja að landsmenn gætu gert betur í að halda húsum sínum hlýjum og hvetur Magnús til þess að steinull verði notuð meira.
„Íslendingar eru ekkert að einangra hús sín rosalega mikið miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Kannski af því að við erum með ódýrari orku. En samt sem áður eru mörg svæði á landinu sem þyldu alveg miklu meiri einangrun heldur en er í dag,“ segir Magnús.

„Því að þetta heita vatn og þessi orka sem við erum með, þetta er ekki óþrjótandi auðlind. Og þeir sem nota rafmagn sem upphitun, það er ekki ódýr leið, eins og menn hafa séð bara í samantekt sem Byggðastofnun gerði um daginn,“ segir talsmaður Steinullar ehf.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: