Aghdam sagði ekkert um að hún væri reið út í YouTube. Hún sagðist vera á leið til ættingja sinna og að hún væri að leita að vinnu.
„Þetta var ósköp venjulegt samtal,“ sagði yfirlögreglustjóri við AP fréttaveituna.
Seinna í gær fór hún á skotsvæði og svo í höfuðstöðvar YouTube þar sem hún komst inn í gegnum bílakjallara. Hún skaut nokkrum skotum úr skammbyssu og særði þrjá áður en hún beindi byssunni að sér. Talið er að hún hafi skotið á fólk af handahófi.
Aghdam hafði sakað YouTube um ritskoðunartilburði og að hafa lokað á myndbönd hennar og hætt að greiða henni. Hún birti reglulega myndbönd sem fjölluðu um grænmetisát, grimmd gegn dýrum og líkamsrækt.
Faðir hennar segist hafa rætt við lögreglu í fyrradag, degi fyrir árásina, og sagt að hún ætlaði sér mögulega að fara á skrifstofur YouTube. Lögreglan segir það þó ekki rétt. Tvisvar sinnum hafi verið rætt við föðurinn fyrir árásina eftir að lögregla hafði afskipti af henni og hann hafi ekkert sagt um að ógn stafaði af henni.
Tvö af fórnarlömbum Aghdam hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en sá þriðji er enn í alvarlegu ástandi.