Handbolti

Fyrirliðinn framlengir hjá FH: Svona leikmaður er ekki á hverju götuhorni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásbjörn Friðriksson virðist aldrei ætla að yfirgefa Kaplakrika.
Ásbjörn Friðriksson virðist aldrei ætla að yfirgefa Kaplakrika. Vísir/Ernir
Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH í Olís-deild karla í handbolta, er búinn að framlengja samning sinn við Hafnafjarðarfélagið en þetta kemur fram á heimasíðu FH-inga.

Ásbjörn skrifaði undir nýjan þriggja ára samning og er því samningsbundinn liðinu til ársins 2021. Hann hefur spilað í áratug með FH eða síðan hann gekk í raðir þess árið 2008.

Með FH varð Ásbjörn Íslandsmeistari árið 2011 en hann stoppaði stutt við í Svíþjóð á þessum tíu árum áður en hann kom aftur í Hafnarfjörðinn. Hann er uppalinn hjá KA og spilaði með Akureyri í efstu deild áður en hann gekk í raðir FH.

Ásbjörn spilaði alla 22 leiki FH-inga í Olís-deildinni í vetur þar sem liðið endaði í þriðja sæti og mætir Aftureldingu í átta liða úrslitum þegar að úrslitakeppnin hefst í næstu viku.

Hann skoraði 4,9 mörk að meðaltali í leik og var með 65 prósent skotnýtingu. Þá skapaði hann fjögur færi að meðaltali í leik og gaf 2,7 stoðsendingar samkvæmt HB Statz. Hann var 14. besti leikmaður deildarinnar samkvæmt kraftröðun HB Statz.

„Ási er frábær leikmaður og sterkur karakter sem fyrir löngu hefur skráð nafn sitt í sögu FH. Leikmaður eins og Ási er ekki á hverju götuhorni og því afar ánægjulegt að hann hafi ákveðið að spila áfram með okkur næstu árin,“ segir Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×