Þingkosningar fara fram í Pakistan í júlí á þessu ári. Hefur MML hug á því að bjóða sig fram í fyrsta sinn. Í október ógilti hæstiréttur úrskurð landskjörstjórnar um að MML fengi ekki leyfi til framboðs vegna meintra tengsla við hryðjuverkasamtök. Annan í páskum var MML svo gert að skila inn nauðsynlegum eyðublöðum til þess að hægt væri að skrá flokkinn formlega, að því er India Times greinir frá.
Utanríkisráðuneytið bandaríska sagði í yfirlýsingu í gær að MML væru leppsamtök, stofnuð til þess að sleppa við þvingunaraðgerðir. Um væri að ræða ofbeldisfullu hryðjuverkasamtökin Lashkar-e-Taiba þótt nafnið væri ekki hið sama.
MML-liðar brugðust illa við ákvörðun Bandaríkjamanna.

Ljóst er að MML ætlar sér stóra hluti í þingkosningum júlímánaðar og fái flokkurinn að bjóða sig fram þrátt fyrir hryðjuverkasamtakaorðsporið er ljóst að málflutningur hans mun setja svip sinn á kosningabaráttuna.
Flokkurinn hefur hins vegar ekki mælst í skoðanakönnunum hingað til, enda ekki formlega kominn í framboð. Þó sýna nýlegar skoðanakannanir að rúm tuttugu prósent hyggjast ekki kjósa þrjá stærstu flokka Pakistans.
Kosningarnar verða þær fyrstu frá því Nawaz Sharif forsætisráðherra sagði af sér eftir að hæstiréttur úrskurði hann sekan í máli sem kom upp eftir leka Panama-skjalanna svokölluðu.