Þáttaröðin SKAM kvaddi í fyrra á hátindi vinsælda sinna, og er áfallið aðdáendum þáttanna eflaust í fersku minni. Téðir aðdáendur geta hins vegar tekið gleði sína á ný en eins og áður sagði minnir hin nýja sería, sem ber heitið Blank, um margt á SKAM.
Sjá einnig: Þetta tekur við hjá stjörnunum í SKAM
Umfjöllunarefnið er, sem áður, norskir unglingar í Ósló, þó að persónurnar í Blank séu nokkuð eldri en Noora, Eva, Isak og félagar þeirra.
Aðalpersóna þáttanna er hin 19 ára Ella sem hefur nýlokið námi við VGS-framhaldsskólann í Ósló, að því er fram kemur á vef NRK. Í þáttunum er fylgst með lífi Ellu og bestu vinkonu hennar, Susanne, auk Mats, kærasta Ellu. Aðdáendur geta fylgt persónunum á Instagram, líkt og boðið var upp á í SKAM.
Mikil leynd hvíldi yfir framleiðslu þáttanna, þeir hafa ekkert verið auglýstir, og kom útgáfa þeirra Norðmönnum í opna skjöldu, að því er fram kemur í umfjöllun NRK. Svipaður háttur var hafður á við framleiðslu SKAM á sínum tíma en aðstandendur þáttanna gáfu ekkert uppi um ferlið áður en þættirnir voru sýndir.
Þá var greint frá því á dögunum að önnur unglingasería í anda SKAM yrði frumsýnd á vef NRK. Sú ber heitið Lovleg og gerist, líkt og SKAM, í menntaskóla en að þessu sinni í afskekkta bænum Sandane í Noregi. Tökur á þeim hefjast í sumar.