Á Cannes kvikmyndahátíðinni í næsta mánuði verður hægt að hringja í sérstakt neyðarnúmer til þess að tilkynna um kynferðislegt ofbeldi.
Marlène Schiappa jafnréttismálaráðherra Frakklands sagði í gær að gripið hefði verið til aðgerða til þess að vernda leikkonur og aðrar konur sem vinna í kringum kvikmyndaiðnaðinn á meðan árlegu Cannes-kvikmyndahátíðiðinni stendur.
„Ein af þeim nauðgunum sem Harvey Weinstein er sakaður um átti sér stað á Cannes hátíðinni, svo hátíðin getur ekki gert ekki neitt,“ segir Schiappa.
Samkvæmt frétt Guardian verður rætt við gesti hátíðarinnar um hegðun þegar þeir mæta á svæðið. Neyðarsími verður opinn á meðan hátíðinni stendur, fyrir bæði þolendur kynferðisofbeldis og fyrir vitni sem vilja tilkynna einstaklinga eða atvik.
Cannes hátíðin fer fram 8. til 19. maí.