Erlent

Prins er fæddur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hér sjást Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja frumsýna frumburð sinn, Georg prins, fyrir utan St Mary's-sjúkrahúsið þann 23. júlí 2013.
Hér sjást Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja frumsýna frumburð sinn, Georg prins, fyrir utan St Mary's-sjúkrahúsið þann 23. júlí 2013. Vísir/AFP
Katrín hertogaynja af Cambridge og Vilhjálmur Bretaprins hafa eignast son. Drengurinn kom í heiminn klukkan 11:01 í morgun og heilsast bæði móður og barni vel. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kensington-höll.

Í tísti, sem birt var á Twitter-reikningi hallarinnar, segir að drengurinn hafi vegið um 15 merkur við fæðingu. Þá var Vilhjálmur viðstaddur fæðingu sonar síns. Í öðru tísti segir að aðrir fjölskyldumeðlimir, þar á meðal drottningin sjálf, hafi verið látnir vita af fæðingu drengsins en hann er nú sá fimmti í erfðaröð krúnunnar.

Fréttir bárust af því í morgun að Katrín hefði verið lögð inn á fæðingardeild St. Mary's-sjúkrahússins í miðborg London en hún átti eldri börn sín tvö einnig á sjúkrahúsinu, Georg árið 2013 og Karlottu árið 2015.



Mikill mannfjöldi safnaðist saman við dyr sjúkrahússins þegar greint var frá því að Katrín hefði verið lögð inn. Fæðingarinnar hafði verið með mikilli eftirvæntingu síðan tilkynnt var um í september síðastliðnum að von væri á barninu.

Katrín og Vilhjálmur vissu ekki hvert kyn barnsins yrði áður en þau mættu á fæðingardeildina í dag. Eins og hefðin býður hafa veðbankar spáð fyrir um það hvaða nafn verði valið á nýjasta meðlim konungsfjölskyldunnar en nöfnin Albert, Frederick, James og Philip eru talin líklegust til að hreppa vinninginn, nú þegar ljóst er að barnið er drengur.

Eins og áður hefur komið fram þjáðist Katrín af hyperedemis gravidarum á meðgöngunni sem á íslensku hefur verið kallað sjúkleg morgunógleði eða sjúkleg uppköst. 

Fréttamenn söfnuðust saman fyrir utan spítalann í morgun.vÍSIR/AFP
Gert er ráð fyrir að prinsinn verði frumsýndur á tröppunum fyrir utan St Mary's-spítalann áður en langt um líður.

Þegar Georg fæddist árið 2013 voru Katrín og Vilhjálmur mætt með hann dagsgamlan á tröppurnar en aðeins um tíu klukkustundir liðu frá fæðingu Karlottu og þangað til heimsbyggðin fékk að berja hana augum.

Ádeilulistamaðurinn Kaya Mar var einn þeirra sem beið eftir fæðingu prinsins í morgun.Vísir/AFP
Eftirvæntingin í aðdáendahópnum var mikil.Vísir/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×