Lið FH í Olís-deild karla í handbolta virðist vera að missa annan lykilmann fyrir næstu leiktíð en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er Ísak Rafnsson á leið til austurríska liðsins Scwaz Handball Tirol.
Ísak er algjör lykilmaður í varnarleik FH-inga sem höfnuðu í þriðja sæti Olís-deildarinnar og eru nú 2-1 undir í undanúrslitarimmu sinni á móti Selfossi. Fjórði leikurinn fer fram á morgun klukkan 19.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.
Fyrir utan að vera einn albesti varnarmaður deildarinnar er Ísak frábær skytta. Hann skoraði tíu mörk í tíu skotum í fyrsta leik tímabilsins á móti Fram og fékk tíu í einkunn á HB Statz fyrir frammistöðu sína.
Glugginn virðist vera að lokast á FH að verða Íslandsmeistari með þetta frábæra lið sem Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar því ef rétt reynist eru þrír lykilmenn á förum frá Hafnafjarðarliðinu í sumar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er nú þegar búinn að semja við þýska stórliðið Kiel og Óðinn Þór Ríkharðsson er á leið til GOG á Fjóni í dönsku úrvalsdeildinni.
FH-ingar halda áfram að missa lykilmenn
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Fleiri fréttir
