Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, fór í gær fram á að Sameinuðu þjóðirnar tækju þátt í því að tryggja að Norður-Kórea stæði við loforð um að afkjarnorkuvæðast, líkt og Moon og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, lofuðu í yfirlýsingu sem þeir undirrituðu í Panmunjom á dögunum.
Fór Moon einnig fram á að SÞ tækju þátt í að koma á varanlegum friði á Kóreuskaga. Þessar óskir sínar bar Moon upp í hálftíma löngu símtali við Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að því er Kim Eui-kyeom, talsmaður forsetaembættisins, greindi frá.
Sér Moon meðal annars fyrir sér að SÞ fylgist með uppfyllingu loforðsins um að breyta vígbúnu landamærasvæði Kóreuskagans í svokallað friðarbelti. Þá bað Moon Guterres um að málið kæmi inn á borð bæði allsherjarþingsins og öryggisráðsins sem gætu svo lýst yfir stuðningi við Panmunjom-yfirlýsinguna.
