Handbolti

Úrslitin hefjast í Eyjum: „Verðugt verkefni að afsanna að þeir séu besta liðið“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úrslitaeinvígið í Olís deild karla í handbolta hefst í dag með fyrsta leik ÍBV og FH í Vestmannaeyjum. ÍBV er taplaust í úrslitakeppninni til þessa en FH þurfti oddaleik til þess að sigra Selfyssinga í undanúrslitunum.

„FH-ingarnir eru verðugt verkefni og hafa sýnt það í vetur að þeir spila frábæran handbolta og viðureignir okkar við þá hafa verið hörku viðureignir,“ sagði Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, en Guðjón Guðmundsson ræddi við fyrirliða beggja liða í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld.

„Við sáum það bara í einvígi þeirra gegn Selfyssingum að þeir eru mjög öflugir þegar á reynir. Eru með leikmenn í sínu liði sem taka af skarið og ég er bara mjög spenntur.“

ÍBV er deildar og bikarmeistari ásamt því sem liðið komst í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu. FH er í úrslitaeinvígi Olís deildarinnar annað árið í röð, en liðið tapaði fyrir Val síðasta vor.

„Þeir hafa unnið þessa titla sem eru í boði á tímabilinu svo það er verðugt verkefni að afsanna það að þeir séu sterkasta liðið,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH.

„Það svíður ennþá þetta tap á móti Val og við ætlum að nýta okkur það, þá reynslu sem við tökum úr því einvígi.“

Leikur eitt í úrslitunum hefst klukkan 17:30 og verður bein útsending frá Eyjum á Stöð 2 Sport frá 17:00. Leikurinn er einnig í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×