Að minnsta kosti ellefu konur, sem barist hafa fyrir réttindum kvenna í Sádí-Arabíu, hafa verið handteknar og eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi fyrir hryðjuverk. Mannréttindasamtök segja þetta benda til þess að allt tal um umbætur í Sádí-Arabíu hafi verið orðin tóm.
Krónprinsinn, Mohammad bin Salman, hefur kynnt sig sem umbótasinna og boðað breytingar í hinu afar íhaldssama samfélagi. Þá hefur hann varið miklu fé í kynningarstarf erlendis til að skapa sér þessa ímynd. Nýleg mánaðarlöng reisa hans um vesturlönd var liður í því starfi og hitti hann fjölda vestrænna leiðtoga.
Konurnar ellefu sem voru handteknar voru allar tengdar baráttu gegn lögum sem svipta konur sjálfræði með því að gera feður þeirra eða eiginmenn að eiginlegum forsjáraðilum þeirra. Konur mega ekki vera á ferð á almannafæri án þess að vera í umsjón karlmanns. Ekki er á dagskrá að afnema þau lög á næstunni.
Í næsta mánuði stendur hins vegar til að leyfa konum að keyra. Þegar sú breyting var tilkynnt fengu margir umbótasinnar skilaboð frá yfirvöldum þar sem þeir voru varaðir við því að tala við fjölmiðla á meðan athygli heimsins beindist að landinu vegna þessa. Handtökurnar gætu því tengst þeim skilaboðum.
