Leikkonan Eunice Gayson, sem var fyrst til að leika ástkonu njósnarans James Bond, er látin. Hún lék persónu Sylviu Trench í myndinni Dr. No sem kom út árið 1962 og var fyrsta myndin sem byggði á sögum Ians Fleming um Bond. Hún lék sömu persónu í næstu mynd, From Russia with Love.
Upphaflega átti persóna hennar að vera fastur liður í Bond myndunum en leikstjóra þriðju myndarinnar, Goldfinger, fannst það ekki góð hugmynd.
Ástkonur Bonds í gegn um tíðina skipta nú mörgum tugum en Gayson er minnst sem fyrstu Bond-stúlkunnar. Upphaflega stóð til að hún léki einkaritara Bonds, frú Moneypenny, en Lois Maxwell hreppti það hlutverk í staðinn.
Þess má geta að þó að Gayson hafi tvisvar leikið Bond-stúlku heyrðist rödd hennar aldrei í myndunum. Á þessum tíma var algengt að aðrar og reyndari leikkonur væru fengnar til að lesa texta fyrir þær yngri. Rödd Sylviu Trench kom því frá Nikki van der Zyl.
