Umfjöllun: Ísland - Gana 2-2 | Köstuðu frá sér sigrinum í kveðjuleiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og strákarnir fagna marki í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson og strákarnir fagna marki í kvöld. Vísir/vilhelm
Hægt er að stytta sér stundir með því að rífast um ýmislegt. Það má rífast up veip-frumvarpið, veiðigjöldin, veðrið og Jordan Peterson

Rifrildi um mikilvægi Gylfa Þórs Sigurðssonar fyrir íslenska landsliðið yrði aftur á móti stutt gaman. Hann er kominn aftur og (fótbolta)Guði sé lof.

Gylfi sveif um völlinn í 2-2 jafntefli Íslands gegn Gana í Laugardalnum í kvöld eins og meiðslin sem lömuðu þjóðina í mars höfðu aldrei átt sér stað. Hann lyfti leiknum á móti Noregi með innkomu sinni en drottnaði yfir leiknum í kvöld.

Gæði hans voru ekki lengi að bera ávöxt. Frábær skrúfusending Gylfa meðfram jörðinni fram hægri vænginn var aðdragandinn að dauðafæri Alfreðs Finnbogasonar en úr varð hornspyrna.

Jóhann Berg tók hornið beint á kollinn á Kára Árnasyni sem sannaði enn eina ferðina gæði sín í vítateig andstæðinganna og skoraði með skalla. Hann hefur þó líklega sjaldnar á ferlinum þurft að hafa minna fyrir skallamarki úr föstu leikatriði. Ganverjar sofandi og staðan 1-0 eftir fimm mínútur.

Hólmar Örn Eyjólfsson spilaði í hægri bakverði í kvöld.vísri/vilhelm

Eins og fyrir tveimur árum

Í aðdraganda EM 2016 tapaði Ísland, 3-2, í næst síðasta vináttuleik liðsins fyrir mótið en var svo ferskt og flott á móti Lichtenstein á Laugardalsvellinum og vann 4-0. Margir grínuðust með að tapið gegn Noregi á laugardaginn væri aðdragandinn að því sama en grínið varð eiginlega að veruleika. Allavega í svona 65 mínútur.

Strákarnir okkar voru miklu ferskari og skarpari en í Noregsleiknum og stýrðu leiknum af festu fyrir utan nokkrar beittar skyndisóknir Ganverja. Gestirnir kunna sitthvað fyrir sér í fótbolta og eru líkamlega sterkir en þeir sköpuðu sér ekki mikið gegn sterkri íslenskri vörninni mest allan leikinn.

Hólmar Örn Eyjólfsson fékk að spreyta sig í hægri bakverði í eilífri leit Heimis Hallgrímssonar að varamanni fyrir Birki Má Sævarsson. Þessi stóri og stæðilegi HK-ingur stóð sig vel, og ekki bara í teignum þar sem að var vitað að hæð hans myndi nýtast vel.

Það var allt annað að sjá rónna yfir varnarleiknum framan af í leiknum með Hannes Þór Halldórsson í markinu og hefði verið frábært að fara til Rússlands eftir að halda hreinu en svo varð ekki.

Ganverjar skoruðu meðal annars eftir fast leikatriði þar sem okkar menn voru ekki alveg með á nótunum. Eitthvað sem við vonum að skrifist bara á æfingaleikjaveikina. Undir lok leiksins lá aftur á móti á okkar mönnum sem voru ekki líkir sjálfum sér frá fyrri hálfeiknum.

Alfreð Finnbogason skoraði í fyrri hálfleik með skalla.vísir/vilhelm

Alfreð á blað

Annað mark Íslands skoraði Alfreð Finnbogason á 40. mínútu leiksins og aftur var það Gylfi Þór Sigurðsson sem bjó meira og minna allt saman til, að þessu sinni með góðri hjálp Birkis Bjarnasonar.

Birkir lagði boltann með hælnum á Gylfa sem skaut með vinstri fæti með þeim afleiðingum að markvörður Gana varði boltann beint fyrir kollinn á Alfreð sem skoraði auðveldlega. Frábært fyrir markahrók liðsins að komast á blað svona rétt fyrir HM.

Það var ekki alveg sami kraftur í íslenska liðinu í seinni hálfeik og uppskáru gestirnir markið sitt á 69. mínútu. Hugurinn vafalítið kominn hálfa leið til Rússlands er nær dró endalokum þessa síðasta leiks fyrir stóru stundina. Ganverjar tóku eiginlega bara yfir leikinn þegar að Gylfi fór af velli eftir fyrra mark þeirra.

Færin voru af skornum skammti í seinni hálfeik þrátt fyrir að íslenska liðið væri töluvert með boltan. Kári Árnason komst í gott skallafæri en markvörður Gana varði vel. Það færi var eftir fast leikatriði og gott að sjá að okkar menn eru enn með allt á hreinu í þeim enda það sem þeir vilja vera hvað bestir í á HM í Rússlandi.

Kári Árnason þakkar Jóhanni Berg fyrir hornspyrnuna í fyrsta markinu.vísir/vilhelm

Slæmur endir

Heimir Hallgrímsson sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann gæti notað mismunandi leikkerfi í Rússlandi en spekingar margir hverjir búast við því að Heimir stilli upp einum framherja á móti Argentínu og Króatíu en tveimur á móti Nígeríu.

Þjálfarateymið vildi ólmt fá leik við Afríkuþjóð til að undirbúa sig sem best fyrir leikinn á móti Nígeríu á HM og var Heimir með tvo frammi.

Björn Bergmann fékk tækifæri til að búa sér til gott pláss á móti nokkuð villtum Ganverjunum sem skilaði fínum boltum á Alfreð og upphaf á nokkrum góðum sóknum er Gylfi lúrði fyrir aftan og beið eftir öðrum eða þriðja bolta.

Þegar uppi var staðið var þessi kveðjustund ekki lík þeirri og þegar okkar menn völtuðu yfir Lichtenstein og mættu fullir sjálfstrausts til Frakklands. Í stöðunni 2-0 var maður farinn að þekkja strákana í bláu treyjunni en síðasti hálftíminn er víti til varnaðar.

Við verðum að treysta því að æfingaleikjaveikin sé að hrella menn en kveðjugjöfin á Laugardalsvelli hefði svo sannarlega mátt vera betri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira