Erlent

Merkel býst við deilum á G7 fundi

Samúel Karl Ólason skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Vísir/AP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, býst við deilum á fundi G7 ríkjanna í Kanada um helgina. Hún segist jafnvel eiga von á því að leiðtogar ríkjanna muni ekki komast að samkomulagi um sameiginlega yfirlýsingu að fundinum loknum.

Að mestu má rekja þessar áhyggjur hennar til Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og skoðana hans á alþjóðaviðskiptum, loftlagsbreytingum og varnarmála.

„Ég held að allir viti að þetta verða erfiðar viðræður, þar sem G7 fundir snúa að öryggismálum, viðskiptum, jarðvernd, þróun og utanríkismálum,“ sagði Merkel á þýska þinginu í dag, samkvæmt AFP fréttaveitunni.



Trump hefur á undanförnum misserum slitið Bandaríkin frá Parísar-sáttmálanum og kjarnorkusamkomulaginu við Íran. Þar að auki hefur hann beitt tollum gegn mörgum af G7 ríkjum.



Samkvæmt Washington Post var Merkel spurð af þingmönnum frá þjóðernishyggjuflokknum Alternative for Germany og vinstri flokknum Vinstri, hvort ekki væri réttast að ræða meira við yfirvöld Rússlands og jafnvel endurvekja G8 með Rússum. Eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga frá Úkraínu var þeim vísað úr G8 sem varð G7.



Merkel svaraði á þá leið að G7 tæki mið af virðingu aðildarríkja fyrir alþjóðalögum og aðgerðir Rússa í Úkraínu brytu bersýnilega gegn þeim. Brottvísun Rússa hefði verið óhjákvæmileg.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×