Handbolti

Rússarnir brunuðu inn á HM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dmitry Zhitnikov er öflugur leikmaður.
Dmitry Zhitnikov er öflugur leikmaður. Vísir/Getty
Rússland verður með á HM karla í handbolta í Þýskalandi og Danmörku í janúar 2019 eftir átta marka sigur í seinni umspilsleiknum sínum á móti Tékkum.

Tékkar unnu fyrri leikinn 27-26 á heimavelli sínum fyrir fjórum dögum eftir að hafa unnið upp fimm marka forskot Rússa í seinni hálfleiknum.

Í seinni leiknum í Perm í dag þá gaf rússneski björninn þeim engin grið. Rússar unnu leikinn 29-21 eftir að hafa verið 14-11 yfir í hálfleik.

Rússneska liðið vann því umspilið samanlagt 55-48 og er fyrsta landsliðið til að komast upp úr því. Íslenska landsliðið vonast til að fylgja í kjölfarið annað kvöld.

Dmitry Zhitnikov, liðsfélagi íslenska landsliðsmannsins Stefáns Rafns Sigurmannssonar hjá Pick Szeged, átti stórleik og skoraði átta mörk fyrir Rússa í leiknum.

Reynsluboltinn Sergei Gorbok sem spilaði líka með Pick Szeged í vetur var síðan næstmarkahæstur með fimm mörk. Gorbok spilar með RK Vardar á næsta tímabili.

Rússar eru því komnir inn á HM sem verður fyrsta stórmót þeirra í tvö ár því þeim mistókst að tryggja sér sæti á EM í Króatíu sem fram fór í janúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×