Nýr forsætisráðherra Spánar segir að þarlend yfirvöld séu tilbúin að taka við björgunarskipi með rúmlega sex hundruð flóttamönnum sem Ítalir hafa neitað um leyfi að koma til hafnar. Með því vill ráðherrann forða mannúðarhamförum.
Innanríkisráðherrann í nýrri stjórn popúlista og harðlínumanna á Ítalíu lokaði höfnum landsins fyrir björgunarskipinu Aquarius með 629 manns um borð sem bjargað var í líbískri lögsögu á Miðjarðarhafi.
„Að bjarga lífum er skylda, að breyta Ítalíu í risavaxnar flóttamannabúðir er það ekki,“ sagði Matteo Salvini, ítalski innanríkisráðherrann sem er einnig leiðtogi hægriöfgaflokksins Bandalagsins.
Salvini bað Maltverja um að taka við skipinu en þeir höfnuðu því. Vísuðu stjórnvöld á eyjunni til þess að skipið tilheyrði lögsögu Ítalíu.
Pedro Sánchez, nýr forsætisráðherra Spánar og leiðtogi sósíalista, hefur nú höggvið á hnútinn og sagt að Aquarius fái í örugga höfn í Valencia á austurströnd Spánar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Áður hafði borgarstjórinn í Palermo á Sikiley sagst veita skipinu leyfi til að koma til hafnar í trássi við vilja ríkisstjórnarinnar.
