Lögreglan í borginni Rostov við Don í Rússlandi þar sem íslenska landsliðið keppti við Króatíu fyrr í kvöld rýmdi hótel vegna sprengjuhótunar. Hótelið er á lista alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA yfir opinber hótel heimsmeistaramótsins en ekkert landslið gistir þó á því.
Reuters-fréttastofan segir að sést hafi til lögregluhunda fara inn í Topos Congress-hótelið í Rostov við Don í kvöld í leit að mögulegri sprengju. Öryggissveitir hafi rætt við vitni fyrir utan hótelið. Um sextíu gestir hafi staðið fyrir utan hótelið á meðan.
Að sögn hótelstarfsmanna gista um 210 manns þar. Samkvæmt heimildum Vísis gistir einhver fjöldi Íslendinga á hótelinu.
Rostov við Don er aðeins 67 kílómetra frá landamærum Rússlands að austurhluta Úkraínu þar sem rússnesk stjórnvöld hafa lagt uppreisnarmönnum lið í blóðugum átökum undanfarin ár.
Næst verður leikið í borginni á heimsmeistaramótinu á mánudag.
Uppfært 23:20 Lögreglan í Rostov við Don segir við Reuters að hún hafi rýmt sextán staði í borginni í kvöld, þar á meðal hótel og veitingastaði, og að það hafi verið liður í æfingu. Áður hafði lögregla sagt Reuters að Topos Congress-hótelið hefði verið rýmt vegna gruns um sprenguhótun.
Rýmdu hótel í Rostov vegna sprengjuhótunar
Kjartan Kjartansson skrifar
