„Það er gífurleg stemning hérna. Það var gerð skoðanakönnun hérna á hvaða liði menn héldu með á mótinu og þá var Ísland langefst með ríflega fjörutíu prósent svara. Bretar komu næst með um fimmtán prósent og yfirvaldið í Danmörku var í þriðja sæti með rúm tíu,“ segir Birnir S. Hauksson. Birnir hefur búið og starfað í Færeyjum í um áratug.
Ástæðan fyrir því að Færeyingar eru svo hallir undir Englendinga segir Birnir vera að Bretar hernámu eyjarnar í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir það hafi íbúar eyjanna haft nokkuð sterkar taugar til Englands. Það séu hins vegar ekki allir hrifnir af Dönum og það fari illa í marga Færeyinga séu þeir kallaðir Danir.

„Leikurinn í dag verður sýndur þar aftur. Við vitum náttúrulega ekki hve margir mæta en það mun fara eftir veðri. Að þessu sinni verður það Gummi Ben sem mun hljóma í kerfinu en ekki danskur þulur,“ segir Birnir.
Birnir segir að á Evrópumótinu fyrir tveimur árum hafi ávallt verið danskur lýsandi og það hafi valdið því að stemningin var ekki eins mikil og hún hefði getað orðið. Æsingurinn í þeim danska hafi ekki verið jafn mikill og hjá íslenska þulnum.

Ísland er, eins og kunnugt er, fámennasta þjóðin sem hefur spilað sig inn á lokakeppni stórmóts. Færeyingar eiga hins vegar raunhæfan möguleika á að slá það met með tilkomu Þjóðadeildar UEFA. Liðið leikur í D-deild keppninnar og er í riðli með Möltu, Kósóvó og Aserbaídsjan. Sigurvegari deildarinnar vinnur sig beint inn á lokakeppni EM 2020. Í síðustu undankeppnum hefur liðið meðal annars lagt Grikkland í tvígang.
„Þegar ég kom hingað fyrir rúmum tíu árum þá var hugarfarið það að þeir ætluðu ekki að tapa of stórt. Nú hugsa þeir öðruvísi og að þeir eigi séns. Framganga Íslands á EM 2016 fannst mér gefa þeim smá „búst“,“ segir Birnir.