„Við finnum fyrir því að foreldrar hafa áhyggjur af tölvuleikjanotkun barna sinna. Við sjáum líka að fólk er að átta sig á vandamálinu. Það er gott að grípa inn í áður en krakkarnir byrja að nota tölvuna,“ segir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, félagsfræðingur og ráðgjafi hjá Mikils virði, áfalla- og fjölskyldumiðstöð.

Leikir eru misávanabindandi og ekki eru allir sem lenda í því að þróa með sér tölvuleikjafíkn.
Að mati margra eru ákveðnir leikir hins vegar sniðnir til að vera ávanabindandi. Slíkir leikir eru að mestu fjölþátttökuleikir, leikir eins og Fortnite, þar sem leikendur spila hver við annan víðsvegar um heiminn í gegnum tölvuna.
Afleiðingar af ávanabindandi tölvuleikjanotkun eru víðtækar; sálrænar, félagslegar, líkamlegar og annað. Þunglyndi og kvíði eru algengir kvillar. „Það er ekkert grín að börnin okkar séu að leika sér í þessu. Þetta byrjar oft svo sakleysislega en svo hægt og bítandi fara þau að hafa minni áhuga á öllu í kringum sig og veita því enga athygli.“