Novak Djokovic vann sinn fjórða Wimbledon titil í dag með öruggum sigri á Kevin Anderson í úrslitaleiknum. Djokovic vann leikinn í þremur settum.
Anderson spilaði einn lengsta leik í manna minnum, annan lengsta leik í sögu Wimbledon, á föstudag þegar hann vann John Isner í undanúrslitunum. Leikurinn tók sex klukkutíma og 35 mínútur og var Anderson í heildina úti á vellinum í nær 11 klukkutíma.
Djokovic mætti Rafael Nadal í hinum undanúrslitaleiknum og var hann sá fimmti lengsti í sögu Wimbledon. Það var hins vegar hlé á þeim leik, þeir hófu leik á föstudagskvöld að loknum leik Anderson og Isner, en þurftu að gera hlé á leiknum fram til laugardagsmorguns.
Suður-Afríkumaðurinn var greinilega ekki búinn að endurheimta alla sína orku í dag og gekk illa að halda í við Djokovic. Serbinn vann í þremur settum 6-2, 6-2, 7-6 (7-3).
Þetta var fyrsti risatitill Djokovic í 25 mánuði.
„Þetta er frábær tilfinning því í fyrsta skipti get ég fagnað með syni mínum,“ sagði Djokovic eftir leikinn.
„Það er enginn staður í heiminum betri fyrir endurkomuna. Þetta er heilagur staður í tennisheiminum. Sem drengur dreymdi mig um að halda á þessum verðlaunagrip og þetta er mjög sérstakt.“
Fyrsti risatitill Djokovic í 25 mánuði
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Mest lesið


Enn leikmaður KR en nú lánaður til Lyngby
Íslenski boltinn


Mbeumo staðfestur hjá félagi drauma sinna
Enski boltinn



Íþróttamaður HK til liðs við ÍA
Íslenski boltinn


