Fjórum drengjum var bjargað úr hellinum á sunnudag í 8 klukkustunda langri aðgerð en ekki tók nema 6 klukkustundir að ná fjórum út til viðbótar í gær.
Björgun dagsins verður þó ekki aðeins lengri af því að bjarga þarf fimm úr hellinum í dag, samanborið við fjóra drengi í síðustu aðgerðum. Auk hinna föstu hefur fjöldi kafara, læknir og aðrir björgunarmenn komið sér fyrir í hellinum og munu þeir verða síðastir út.
Að sama skapi rigndi talsvert í norðurhluta Tælands í nótt. Að sögn talsmanna aðgerðanna ætti það þó ekki að hafa nein teljandi áhrif á aðgerðir dagsins.

Tveir drengir eru þó sagðir vera með minniháttar lungnasýkingu. Þar að auki eru þeir með sólgleraugu öllum stundum, enda augun ennþá að aðlagast birtunni eftir 2 vikur í niðamyrkum hellinum.
Þeir munu dvelja hið minnsta í viku í viðbót á sjúkrahúsinu. Það þýðir að þeir geta ekki verið viðstaddir úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer um næstu helgi - eins og Guðni Th. Jóhannesson og forseti FIFA höfðu vonað.
Þá mætti tæknifrömuðurinn Elon Musk með hinn víðfræga kafbát, sem hann lét vísindamenn sína setja saman á mettíma til að aðstoða við aðgerðirnar, þrátt fyrir að stjórnendur hefðu afþakkað boðið. Þeir segja að þó svo að báturinn sé tæknilega fullkominn henti hann ekki þessari tilteknu aðgerð. Musk skildi bátinn engu að síður eftir, ef þeim skyldi snúast hugur.
Just returned from Cave 3. Mini-sub is ready if needed. It is made of rocket parts & named Wild Boar after kids' soccer team. Leaving here in case it may be useful in the future. Thailand is so beautiful. pic.twitter.com/EHNh8ydaTT
— Elon Musk (@elonmusk) July 9, 2018