Fótbolti

Belgar geta leikið til úrslita í fyrsta skipti í sögunni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Belgía vann Brasilíu í átta liða úrslitum.
Belgía vann Brasilíu í átta liða úrslitum. Vísir/Getty
Það kemur í ljós um áttaleytið í kvöld hvort það verða Frakkar eða Belgar sem leika til úrslita á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu karla, en liðin mætast í undanúrslitum mótsins í Sankti Pétursborg. Frakkar hafa einu sinni lyft heimsmeistarabikarnum, en það var í París árið 1998 og þá var núverandi þjálfari liðsins, Didier Deschamps, fyrirliði liðsins.

Thierry Henry sem nú er í þjálfarateymi belgíska liðsins var ónotaður varamaður hjá franska liðinu í þeim leik, en hann var þá tvítugur og braut sér leið fram á sjónarsviðið með því að skora þrjú mörk fyrir Frakka á mótinu.

Belgar hafa hins vegar aldrei komist í úrslit á mótinu, en liðið hefur nú þegar búið þannig um hnútana að það muni jafna sinn besta árangur á mótinu sem er fjórða sætið í Mexíkó árið 1986.

Liðin hafa bæði farið í gegnum keppnina án þess að tapa, en Frakkar hafa haft betur í fjórum leikjum og gert eitt jafntefli á meðan Belgar hafa borið sigurorð af mótherjunum í öllum sínum leikjum.

Belgía hefur skorað mesta allra liða í keppninni eða 14 mörk alls og Romelu Lukaku, framherji liðsins, er markahæstur hjá liðinu með fjögur mörk. Hann er næstmarkahæsti leikmaður mótsins á eftir Englendingnum Harry Kane sem hefur skorað sex mörk. Antoine Griezmann og Kylian Mbappé hafa hins vegar skorað mest fyrir Frakka, þrjú mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×