Fimm Íslendingar keppa í fullorðinsflokki á leikunum í ár og þrír í unglingaflokki. Það er ekki slæmt fyrir litla Ísland að eiga alls átta fulltrúa meðal besta CrossFit-fólks í heimi.
Björgvin Karl Guðmundsson er eini keppandinn í karlaflokki en þær Anníe Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Oddrún Eik Gylfadóttir keppa allar í kvennaflokki. Frederick Aegidius, kærasti Annie Mistar, er einnig með.
Brynjar Ari Magnússon keppir í flokki stráka 14 til 15 ára, Birta Líf Þórarinsdóttir keppir í flokki stelpna 14 til 15 ára og Katla Björk Ketilsdóttir, núverandi Íslandsmeistari í CrossFit, keppir síðan í flokki stelpna 16 til 17 ára.
Fyrsti keppnisdagurinn er í dag miðvikudaginn 1. ágúst og þá fara fram fjórar greinar. Þetta hefur verið kallaður erfiðasti dagurinn í sögu heimsleikanna í CrossFit.
Dagskráin á degi 1 á heimsleikunum 2018:
1. grein - Götuhjólreiðakeppni
2. grein - 30 Muscle ups
3. grein - Crossfit lyftingar
4. grein - Maraþon róður
Hér að neðan má sjá beina útsendingu frá heimsleikunum.