John Brennan, fyrrverandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, íhugar nú að höfða mál gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að Trump afturkallaði öryggisheimild Brennans.
Þegar fregnir bárust af því að forsetinn hefði ákveðið að afturkalla öryggisheimildina taldi Hvíta húsið til nokkrar ástæður fyrri ákvörðuninni, þar á meðal að Brennan hafi sýnt af sér „óútreiknanlega hegðun“ að undanförnu.
Þetta samræmist þó ekki því sem Trump sjálfur gaf upp í viðtali við Wall Street Journal, þar sem hann greindi frá því að ein af ástæðunum hafi verið sú staðreynd að Brennan var tengdur hinni svokölluðu Rússarannsókn sem nú stendur yfir.
Nú segist Brennan vera að íhuga málaferli gegn Trump sökum ákvörðunarinnar eftir að margir málsmetandi lögmenn hafi sett sig í samband við hann.
Þá sagði hann ákvörðun Trumps um að afturkalla öryggisheimildina vera leið forsetans til þess að hræða aðra ríkisstarfsmenn frá því að gagnrýna Trump.
„Þetta voru augljós skilaboð um það að ef þú ferð gegn honum mun hann svífast einskis til þess að refsa þér,” sagði Brennan. Þá kallaði Brennan ákvörðunina dæmi um „svívirðilega“ nálgun Trumps á eigið vald.
„Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að svona hlutir komi fyrir í framtíðinni og ef ég þarf að fara fyrir dómstóla til þess þá geri ég það.“
Fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar íhugar málaferli gegn Trump

Tengdar fréttir

Fyrrverandi leyniþjónustumenn gagnrýna framgöngu Trump
Tólf leyniþjónustumenn úr báðum flokkum og aðmíráll sem stýrði aðgerðinni þar sem Osama bin Laden var drepinn gagnrýna meðferð Trump forseta á fyrrverandi forstjóra CIA.

Trump afturkallar öryggisheimild fyrrverandi yfirmanns leyniþjónustunnar
Bandaríkjaforseti hefur afturkallað öryggisheimild John Brennan, fyrrverandi yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Afturkallaði öryggisheimild CIA-forstjóra vegna Rússarannsóknarinnar
Hvíta húsið hafði vísað til framgöngu Johns Brennan á opinberum vettvangi. Trump sagði síðan í viðtali að ástæðan hafi verið aðkoma forstjórans að Rússarannsókninni svonefndu.