Veðrið hefur leikið við gesti Menningarnætur í Reykjavík í dag. Á þriðja hundrað viðburða voru á dagskrá og er búist við að yfir hundrað þúsund manns leggi leið sína í miðborgina í dag og í kvöld. Borgarstjóri setti Menningarnótt með formlegum hætti á Hafnartorgi í hádeginu en óhætt er að segja að líf og fjör hafi verið í borginni í allan dag enda nóg um að vera.

Auk hlaupsins var ótalmargt annað á dagskrá en á meðan flestir spókuðu sig í sólinni voru aðrir sem stóðu vaktina við hin ýmsu verkefni. Þá buðu íbúar við Grettisgötu í vöfflur og fjöldi fólks nýtti tækifærið og fór í ódýrt útsýnisflug yfir borgina hjá Reykjavik Helicopters svo fátt eitt sé nefnt. Í flugskýli fyrirtækisins, sem er jafnframt það elsta á landinu, var jafnframt boðið upp á ljósmyndasýningu.
