Ríkissaksóknari í Úkraínu hefur krafist þess að Viktor Janúkóvitsj, fyrrverandi forseti landsins, verði dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir landráð.
„Viktor Janúkóvitsj sveik landið sitt. Hann sveik herinn sinn á einum erfiðasta tíma sem land hans og þjóð hefur þurft að ganga í gegnum,“ segir í yfirlýsingu frá saksóknaraembættinu.
Að sögn saksóknara gerði Janúkóvitsj allt sem í sínu valdi stóð til að aðstoða rússnesk stjórnvöld að innlima úkraínskt landsvæði. Janúkóvitsj hefur sjálfur hafnað ásökunum um að hann hafi beðið Vladimír Pútín Rússlandsforseta að senda herlið til Úkraínu í febrúar 2014.
Rússar innlimuðu hinn úkraínska Krímskaga mánuði eftir að Janúkóvitsj flúði til Rússlands árið 2014. Hann hefur verið í útlegð í landinu síðan.
Réttarhöld í máli Janúkóvitsj hafa staðið yfir í fjarveru hans frá því í maí 2017.
