Íslensku strákarnir í U16 ára landsliðinu í körfubolta eru úr leik eftir stórt tap, 86-59, gegn Bosníu í 8-liða úrslitunum í B-delidinni á EM.
Heimamenn í Bosníu gáfu tóninn í fyrsta leikhluta. Þeir unnu hann með ellefu stigum, 22-11, og annan leikhluta einnig svo þeir leiddu 38-18 í hálfleik.
Strákarnir búnir að koma sér í erfið mál en sýndu mikinn karakter með að vinna þriðja leikhlutann 22-18 og laga aðeins stöðuna fyrir síðasta leikhlutann.
Bosníu-menn stigu þá aftur á bensíngjöfina. Unnu fjórða leikhlutann 30-19 og leikinn sjálfan með 27 stiga mun, 86-59, og strákarnir okkar leika því um sæti fimm til átta.
Magnús Lúðvíksson skoraði tíu stig fyrir Ísland og Ástþór Svalason kom næstur með átta. Benóný Svanur Sigurðsson skoraði átta stig og Sveinn Birgisson sjö.
