Musk kallaði Unsworth, sem var einn þeirra fyrstu á vettvang við björgun tælensku fótboltastrákanna í sumar, fyrst barnaníðing í júlí. Unsworth hafði þá gagnrýnt Musk fyrir að blanda sér í björgunaraðgerðirnar og sakaði hann um að nýta sér harmleikinn fyrir athygli.
Sjá einnig: Musk heldur því aftur fram að björgunarmaðurinn sé barnaníðingur
Á Twitter í gær ýjaði Musk svo aftur að því að Unsworth væri barnaníðingur er hann spurði Twitter-notanda hvort honum þætti ekki skrýtið að Unsworth hefði ekki lögsótt sig vegna ásakananna. Þegar Twitter-notandinn gaf lítið fyrir þessar vangaveltur uppfinningamannsins spurði Musk ítrekað hvort hann hefði rannsakað málið sjálfur, og ýjaði enn að sekt Unsworth.

Unsworth hótaði að stefna Musk fyrir upphaflegu ummælin í júlí en ekkert varð af því eftir að sá síðarnefndi baðst afsökunar. Þá er vert að nefna að enginn fótur virðist vera fyrir ásökunum Musks.