Tuttugu ár eru síðan Guðmundur missti báða handleggina í vinnuslysi. Hann hefur beðið handaágræðslu í Frakklandi í áratug.
Guðmundur er nú á Íslandi. Heimildarmynd um hann verður frumsýnd í Bíói Paradís á fimmtudag. Kvikmyndagerðarmenn hafa fylgt Guðmundi eftir frá árinu 2011 og er afraksturinn myndin „Nýjar hendur innan seilingar“.
Mikið var fjallað um það í fjölmiðlum þegar Guðmundur ákvað að fara í handaágræðsluna sem yrði sú fyrsta sinnar tegundar. Alls söfnuðust 40 milljónir króna, meðal annars til að hann gæti haldið út til Lyon og gengist undir aðgerðina. Síðan hafa flestir kannski lítið heyrt af gangi mála.
Heimildarmyndin varpar ljósi á það sem gerst hefur síðan. Biðina, ótal frestanir, baráttuna við kerfið og skrifræðið ytra.

„Staðan er alltaf sú að við bíðum eftir gjafa. Frá 2016 erum við komin yfir mesta skrifræðið og allt sem við lentum í fyrstu árin. Það tók rosalegan tíma að lenda í kerfinu en núna erum við í raun að bíða eftir að einhver deyi. Það er skrýtin staða að vera í, að hlusta eftir sjúkrabílum. Að vonast eftir að þetta fari að gerast sem aftur þýðir að maður er að vonast eftir að einhver deyi. Þetta er siðferðilegt dílemma.“
Guðmundur segir að hann búi enn að þeim fjármunum sem söfnuðust fyrir hann. Mikill kostnaður hafi fallið til í byrjun. Síðan hafi þetta staðið undir leigu og uppihaldi í Lyon. Nú sé einnig komið í gegn að rannsóknarsjóður við spítalann mun koma að fjármögnun aðgerðarinnar að einhverju leyti.
Eins og sjá má í myndinni, sem óhætt er að mæla með, gefst Guðmundur ekki upp og heldur enn í vonina og veit að aðgerðin mun eiga sér stað.
„Það veit enginn hvernig þetta mun takast. En það sem telst ásættanlegur árangur er olnbogahreyfingar, að ég geti lyft og hreyft olnboga. Það er ekki mjög líklegt að ég geti notað fingurna. Hvað mig varðar, þó svo að ég muni ekki geta notað fingurna og á endanum myndi taka hendurnar sjálfar af aftur, þá er ég samt mikið betur settur hvað úrval gerviútlima varðar.“