Umhverfisstofnun hefur veitt kvikmyndagerðarfyrirtækinu Pegasusi leyfi til að setja upp vinnupalla í Skógafossi og aka 500 metra utanvega og bora holur í fjöru vestan Dyrhólaeyjar. Að auki var veitt heimild til að mynda með dróna í friðlandinu við Gullfoss. Um er að ræða tökur fyrir Netflix á annarri syrpu sjónvarpsþáttanna Lost in Space. Leyfið tók gildi á þriðjudag og rennur út á morgun.
Við Skógafoss er leyft að aka sexhjóli með kerru alveg upp að fossinum enda eru tökurnar inni í vatnsúðanum frá fossinum. Koma átti 20 fermetra palli fyrir í ánni í gærkvöldi og moka til efni í henni til að til að festa flekann. Stillans verður á bakkanum við fossinn.
„Ljóst er að verkefnið mun rýra upplifun þeirra gesta sem koma á svæðið þessa tvo daga sem tökurnar fara fram en flestir erlendir gestir koma að Skógafossi einungis einu sinni yfir ævina,“ segir í leyfisbréfi Umhverfisstofnunar varðandi Skógafoss.

„Hafandi ekki skoðað þetta meira, þá hef ég ekki neitt sérstakt um það að segja,“ segir Auður aðspurð hvort Landvernd leggi þá ekki sjálfstætt mat á málið. „Kvikmyndataka getur valdið raski eins og öll önnur starfsemi en Umhverfisstofnun hefur hingað til verið fremur ströng á þessum leyfum og fylgst mjög vel með. Þetta kannski snertir ferðaþjónustuna verr.“
Í júní í fyrra tilkynnti Umhverfisstofnun að „náttúruvættið Skógafoss“ færi af svokölluðum appelsínugulum lista á rauðan lista. „Svæðið lætur mikið á sjá vegna gríðarlegrar aukningar á ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring. Lítil landvarsla er á svæðinu og stýringu ferðamanna um svæðið er ábótavant.“
Auður leggur áherslu á að utanvegaakstur sem leyfður sé verði ekki sýnilegur. „Ef utanvegaakstur sést á mynd er það fordæmisgefandi fyrir aðra – og það er eitthvað sem við þurfum að passa upp á.“