Skoðun

Tilvistarkreppa

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Undanfarið hefur birst holskefla frétta af bágri stöðu fjölmiðla á Íslandi. Nú síðast var það Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, sem birti afkomu sína, en tæplega 300 milljóna tap var á rekstri félagsins í fyrra. Framkvæmdastjórinn taldi nokkrar ástæður fyrir versnandi afkomu, meðal annars hækkandi launakostnað og harðvítuga erlenda samkeppni. Þessa liði þekkja atvinnurekendur úr öðrum geirum. Launakostnaðinn þekkja allir, og erlenda samkeppnin ætti að hljóma kunnuglega í eyrum verslunareigenda nú á tímum alþjóðlegra netverslana.

Eitt til nefndi framkvæmdastjórinn. Atriði sem aðrir atvinnurekendur kannast síður við. Forsvarsmenn Haga þurfa ekki að berjast um starfsfólk og markaðshlutdeild við niðurgreidda ríkismatvörubúð. Eigendur tískuverslana þurfa heldur ekki að eiga við Tízkuverslun ríkisins í daglegu amstri. Sem betur fer ekki.

Fjölmiðlar þurfa hins vegar að etja kappi við ríkisrisann RÚV, sem ekki bara fær um fjóra milljarða í skattfé í vasann á ári hverju, heldur starfrækir öflugustu auglýsingasöludeild landsins og tekur þar vel á þriðja milljarð árlega til viðbótar. Sumarið var sérstaklega slæmt í þeim efnum. RÚV beitti óvönduðum meðul­um við sölu á auglýsingum vegna HM í knattspyrnu. Auglýsingapakkar stofnunarinnar bundu auglýsingafé fyrirtækja langt fram eftir hausti.

Einkamiðlarnir urðu því ekki bara af tekjum yfir blásumarið heldur frá því snemma í vor og langt fram á haustið. Allir frjálsir miðlar finna fyrir þessu nú um stundir. Þeir smærri, til dæmis N4 á Akureyri, kvörtuðu undan því að svona högg gæti riðið þeim að fullu. Eins og ritstjóri annars smærri miðils, Kjarnans, orðaði það svo smekklega, þá tekur RÚV súrefni frá öðrum á markaðnum.

Markmiðið með veru RÚV á markaði hlýtur að vera að efla frjálsa fjölmiðlun og þar með tjáningarfrelsið. Staðreyndin er hins vegar sú að RÚV tekur við almannafé með annarri hendinni, en murkar svo lífið úr einkareknu miðlunum með hinni. Svo mjög að eðlilegt er að spyrja hvort áhrif RÚV á opna og lýðræðislega umræðu í landinu séu yfir höfuð jákvæð þegar allt er talið.

Flest getum við sammælst um að RÚV eigi að vera starfrækt í einhverri mynd. Þar starfar margt frábært fagfólk og dagskrárgerð er í mörgu til fyrirmyndar. Ekki er við það fólk að sakast þótt stjórnmálamönnum hafi með aðgerðaleysi tekist að gera RÚV að útblásnu bákni í tilvistarkreppu. Vandræðagangur stjórnmálamannanna er aðför að tjáningarfrelsinu og hættulegt frjálsri fjölmiðlun.

Nú liggja fyrir ágætar tillögur fjölmiðlanefndar númer óteljandi. Síðast þegar fréttist hafði verið skipuð nefnd um niðurstöðu nefndarinnar. Kannski þarf svo nefnd um niðurstöðu þeirrar nefndar.

Gott fyrsta skref úr þessari heimatilbúnu tilvistarkreppu væri að koma ágætum tillögum þeirrar nefndar til framkvæmdar. Ef menntamálaráðherra myndi auðnast að taka það skref hefði hún tekið þau fleiri en allir forverar hennar samanlagt í þessum málaflokki.

Áfram gakk.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×