Stjórnvöld hafa staðið fyrir samráðsfundum með aðilum vinnumarkaðarins frá því í ársbyrjun. Í aðdraganda komandi kjarasamninga var Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor fenginn til að vinna skýrslu um stöðu efnahagsmála. Í skýrslunni sem kynnt var í samráðshópnum í síðustu viku kemur fram að svigrúm til launahækkana sé um fjögur prósent.
Ljóst er að verkalýðshreyfingin lítur einnig til aðgerða stjórnvalda til að liðka fyrir samningum. ASÍ sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem segir að tími aðgerða sé runninn upp. Búið sé að greina stöðuna og er þar meðal annars vísað í ársgamla skýrslu sambandsins um þróun á skattbyrði launafólks.
Segir í tilkynningunni að kaupmáttaraukning síðustu ára hafi síður skilað sér til lágtekjufólks vegna vaxandi skattbyrði. Stjórnvöld hafi í skattaáherslum sínum unnið gegn áherslu verkalýðshreyfingarinnar á sérstaka hækkun lægstu launa.
Þessi þróun hafi orðið vegna þess að skattleysismörk hafi ekki fylgt launaþróun á sama tíma og vaxta- og barnabætur hafi lækkað. ASÍ segir að boltinn sé hjá stjórnvöldum og tími til kominn að tekið verði á þessu augljósa óréttlæti.
