Útibúi Arion banka í Grundarfirði verður lokað í byrjun nóvember og sameinast útibúi bankans í Stykkishólmi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að áfram verði alhliða hraðþjónustubanki í Grundarfirði þar sem meðal annars verði hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra.
Í tilkynningunni er ennfremur sagt frá frekari breytingum á útibúaneti bankans.
„Þann 7. október mun Arion banki opna nýtt útibú í Garðabæ og í nóvember opnum við aftur eftir breytingar í Vesturbæ Reykjavíkur. Útibúið í Garðabæ verður á nýjum stað í Hagkaupum við Litlatún en í Vesturbæ verður útibú bankans áfram í húsnæði Hótel Sögu sem er nýuppgert. Þar mun bankinn deila húsnæði með Póstinum. Á nýju ári mun Arion banki svo flytja útibú sitt á Akureyri á Glerártorg.
Nýju útibúin eru öll hönnuð með stafrænar þjónustuleiðir Arion banka í huga. Markmiðið er að gera þjónustu bankans aðgengilegri og þægilegri fyrir viðskiptavini. Staðsetning útibúanna er valin með það í huga að þau séu í leiðinni fyrir fólk sem er að sinna daglegum erindum og áhersla er lögð á sveigjanlegri þjónustutíma,“ segir í tilkynningunni.
Horfi bankinn sérstaklega til útibús þess í Kringlunni þar sem starfsfólk hefur aðstoðað viðskiptavini bankans og kennt á stafrænar lausnir. Með hjálp fjarfundarbúnaðar verði unnt að njóta ítarlegri þjónustu og ráðgjafar sem bankinn býður upp á.

