Brynjar Níelsson er einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem skrifuðu aðsenda grein í Morgunblaðið um helgina þar sem talað er fyrir einkarekstri í heilbrigðisgeiranum. Hann segir mikilvægt að árétta stefnu flokksins gagnvart sínum kjósendum.
„Okkar kjósendur mega ekki halda að af því við þegjum þá séum við sammála ráðherranum. Við verðum að láta vita að við erum ekki sammála honum,“ segir Brynjar.

„Það var vitað að þessir tveir flokkar hafa gerólíka sýn á málaflokkinn og nú er það að birtast okkur. Það mun nú reyna á fyrir flokkana að ná sátt og málamiðlun í þessum efnum,“ segir Eiríkur.
„Hins vegar er það ekki nýlunda að flokkar í ríkisstjórn séu ósammála um stór mál.“
Brynjar telur einmitt að það verði verkefni vetrarins að koma flokkunum saman í þessum málaflokki. Ekki hafi verið tekið á þessu máli í stjórnarsáttmálanum.
„Það er ekkert þannig að það sé eitthvað komið frá ríkisstjórninni, það er ekkert þannig. Hún er bara að vinna sem ráðherra innan þeirra heimilda sem henni eru settar samkvæmt lögum og er að fara í ákveðna átt að manni sýnist og við höfum áhyggjur af því og þess vegna skrifuðum við þessa grein. Þetta getur orðið stórmál í ríkisstjórn ef menn ætla að fara að kollvarpa kerfinu,“ segir Brynjar.

Brynjar segir það ekki koma til greina að ráðherra myndi leggja fram slíkt frumvarp.
„Það hefði aldrei komið til greina. hún hefði aldrei náð samstöðu um það í ríkisstjórn að banna allan einkarekstur þar sem er hagnaður,“ bætir Brynjar við.