Ofanritaður beið spenntur eftir því að sjá hvernig strákarnir mættu til leiks. Hvort þeir væru enn á hælunum eins og í Sviss eða hvort þeir ætluðu að sýna þann kraft og vinnusemi sem kom liðinu á tvö stórmót.
Því var fljótsvarað. Strákarnir mættu til leiks af miklum krafti. Ljóst að þeir höfðu drukkið mjólkina sína í morgun. Jón Daði gaf tóninn með því að klobba Kompany glæsilega og stuð í Dalnum.
Okkar menn voru betri fyrsta stundarfjórðunginn og mun líklegri en gestirnir sem fóru hægt af stað. Gylfi komst í hálffæri á 14. mínútu eftir fína sendingu Jóns Daða en skot hans í Kompany og fram hjá.
Það var færið sem vakti gestina. Þeir tóku algjörlega yfir leikinn á meðan okkar menn fylgdust með. Krafturinn og viljinn sem var áberandi fyrsta korterið var horfinn. Það var líklega léttmjólk sem þeir drukku í morgun.
Pressa Belganna jókst jafnt og þétt. Á 28. mínútu var dæmd vítaspyrna. Romelu Lukaku hristi þá Sverri Inga af sér og Sverrir ákvað að toga í hann. Klárt víti. Eden Hazard skoraði af fádæma öryggi úr vítinu.

Það þýddi bara eitt að strákarnir urðu að koma úr skotgröfunum og reyna að sækja. Sóknartilburðir íslenska liðsins voru máttlausir. Ef það kom sending fyrir markið var einn eða tveir í blárri treyju í teignum gegn her Belga. Miðjan fylgdi ekki með heldur beið bara róleg. Ekkert hugrekki til að sækja og ómögulegt að sjá hvernig okkar menn ætluðu að skora.
Strákarnir sýndu aðeins meira hugrekki í síðari hálfleik. Fleiri leikmenn komu upp völlinn en færin komu aftur á móti ekki. Liðið virtist ekki hafa gæði til þess að skapa færi gegn stórkostlegu liði Belga. Vinnslan og hjartað þó til staðar.
Belgar gíruðu sig aðeins niður í síðari hálfleik en voru samt sterkari þó svo íslenska liðið væri meira í boltanum. Okkar drengir gerðu Belgum aldrei lífið leitt og Lukaku afgreiddi leikinn níu mínútum fyrir leikslok. Þvílík maskína sá framherji. Má ekki gefa honum neitt pláss.
Niðurstaðan sanngjarn sigur Belga þar sem íslenska liðið átti möguleika í korter en síðan ekki söguna meir. Það var við ofurefli að etja.
Síðasti leikur í Sviss var ævintýralega lélegur og frammistaðan í kvöld mun skárri. Það var í raun ekki annað hægt. Frammistaðan samt ekki nógu góð og mörkin sem liðið fær á sig allt of ódýr. Það er af sem áður var.
Því miður er breiddin í íslenska liðinu ekki orðin það góð að liðið megi við því að vera án manna eins og Arons Einars, Jóhanns Bergs og Alfreðs Finnboga. Þá fer liðið einfaldlega niður um nokkra klassa. Því er nú verr og miður.
Belgía er eitt besta lið sem hefur komið á Laugardalsvöll lengi en síðustu ár hefði Ísland samt staðið í þeim og gefið þeim leik. Það var aldrei í kortunum núna. Hvorki vörn né sókn var í nægilega háum gæðaflokki gegn svona ofurliði eins og Belgíu.
Liðið hefur nú ekki unnið alvöru fótboltaleik í tæpt ár og það er áhyggjuefni. Það eru teikn á lofti og verk að vinna hjá Erik Hamrén að berja saman lið sem getur aftur farið að standa í, og ná árangri, gegn bestu landsliðum heims. Það er fullsnemmt að lýsa því yfir að partíinu sé lokið en það verður brekka að halda liðinu á þeim stalli sem það hefur verið.
Jákvæðustu tíðindi kvöldsins voru þau þó að Kolbeinn Sigþórsson spilaði loksins fótbolta. Hans fyrstu mínútur í rúm tvö ár. Vonandi nær Kolbeinn að komast í sitt besta form aftur. Liðið gæti svo sannarlega nýtt krafta hans.