Viðskipti erlent

Elon Musk stígur til hliðar sem stjórnarformaður Tesla

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Elon Musk hefur átt strembið ár.
Elon Musk hefur átt strembið ár. Vísir/Getty
Elon Musk mun stíga til hliðar sem stjórnarformaður Tesla fyrirtækisins. Hann verður þó forstjóri fyrirtækisins áfram. Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna hefur sektað Tesla fyrirtækið um 20 milljónir Bandaríkjadala og Elon Musk um sömu upphæð.

Fjármálaeftirlitið kærði Elon Musk á fimmtudaginn síðastliðinn fyrir svik í tengslum við tíst hans um að taka fyrirtækið af markaði. Stofnunin segir Elon Musk hafa sagt ósatt í tengslum við tístið í ágúst og er þar sérstaklega átt við ummæli Musk um að hafa þegar tryggt sér fjármagn til að taka fyrirtækið af markaði. Musk má ekki vera stjórnarformaður fyrirtækisins næstu þrjú árin en getur þó áfram verið forstjóri þess. Þetta kemur fram í frétt Guardian um málið. 

Í áðurnefndu tísti sagði Musk að hann væri að íhuga að kaupa fyrirtækið fyrir 420 dali á hlut. Það var um fimmtungi hærra en verðmæti hlutabréfanna var þá og hefði í heildina kostað um 72 milljarða dala.

Fjármálaeftirlitið segir Musk ekki hafa rætt við fjárfesta á þeim tímapunkti. Tístið leiddi til þess að verðmæti hlutabréfa Tesla hækkaði.


Tengdar fréttir

Elon Musk kærður fyrir svik

Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna hefur kært Elon Musk, forstjóra bílaframleiðandans Tesla, fyrir svik í tengslum við tíst hans um að taka fyrirtækið af markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×