Handbolti

Seinni bylgjan: Óskiljanlegasta rauða spjaldið til þessa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Fjöldi rauðra spjalda í upphafi móts í Olísdeild karla hefur verið mikið í umræðunni. Í Safamýrinni um helgina fóru tvö rauð spjöld á loft.

Sérfræðingar Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport fóru yfir rauðu spjöldin í gær og af öllum þeim spjöldum sem gefin hafa verið fanst þeim eitt það óskiljanlegasta þegar Aron Gauti Óskarsson, leikmaður Fram, fékk rautt á 36. mínútu leiksins við KA.

„Ég bara skildi þetta ekki,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, einn sérfræðinga þáttanna.

Öll þessi rauð spjöld sem hafa farið á loft í umferðunum þremur til þessa hafa þó ekki haft nein langtíma áhrif. Leikmennirnir fá ekki að taka meiri þátt í leiknum sem er í gangi í hvert skipti en enginn leikbönn fylgja.

„Málið er, hlutverk dómara í leiknum númer 1, 2 og 3 er að vernda leikmenn,“ sagði Logi Geirsson.

„Það verður að koma einhver refsing á bak við þetta, annars hefur þetta ekkert vægi.“

„Það þarf samt aðeins að laga þessa rauðu spjalda línu,“ sagði Jóhann Gunnar þá. „Mér finnst hrindingar í lofti rautt spjald, rétt. Að toga aftan í skothendi, rautt spjald. En þegar menn eru svona að dangla í andlit, menn eru með hendur út um allt og ætla held ég aldrei viljandi í andlit, það er bara tvær mínútur.“

Alla umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×